9.12.2012 | 21:05
Tíminn líður þegar maður skemmtir sér
Ýmislegt búið að gerast síðan ég borðaði íslenskan fisk. Ég er til dæmis búin að skoða endalausa jólamarkaði, ég veit í alvörunni ekki hvað marga. Ég er búin að fara á jólamarkaðinn í Bergisch Gladbach, hann var ekkert spes, en lítill og krúttlegur. Svo er ég búin að fara á jólamarkaðinn í Neumarkt sem er í miðbænum þar sem aðal verslunargatan byrjar, svo er ég búin að fara á markaðinn við Dómkirkjuna, svo í Heumarkt sem er í gamla bænum og þar er skautasvell í miðjum markaði, svo á Rudolfsplatz og svo í Stadtgarten. Neumarkt, Dom og Heumarkt eru uppáhalds. Það er alltaf jafn kósý að labba um og skoða básana með Glühwein í hönd, þó skemmtilegra á virkum dögum en um helgar. Síðastliðnar tvær helgar er ég búin að upplifa þorláksmessustemningu í bænum þar sem varla er hægt að hreyfa sig fyrir fólki.
Jólamarkaðurinn í Neumarkt, Við Dómkirkjuna og svo Glühwein, maður fær það alltaf í svona sætum bolla.
En að jólamarkaðinum í Stadtgarten. Á mánudaginn ákvað ég að skella mér á Dikta tónleika og samkvæmt tónleikaappinu mínu voru þeir staðsettir í Stadtgarten svo ég skellti mér þangað. Samkvæmt maps í símanum var ég komin á réttan stað (Ok, iphone maps en samt) en ég sá bara jólamarkað, en ég ákvað að skella mér í smá jólamarkaðsrölt fyrst ég var komin þangað. Svo var ég búin að vera í góðan hálftíma að leita að tónleikasvæðinu þegar ég mæti svo bara Hauki, söngvaranum í Dikta. Hann gat ekki hjálpað mér mikið en hann vissi allavega hvar byggingin var, svo ég komst inn á endanum. Þetta voru frábærir tónleikar og mér fannst upphitunargaurinn mjög góður líka, já og myndarlegur, Jan eitthvað (HEHEHE). Það voru svona 50-70 manns á þessum tónleikum svo þetta var bara virkilega kósý, og að fá smá íslenskt í hjartað. Ég hitti Ásu þar, íslenska konu sem býr í Köln, en annars held ég að það hafi ekki verið neinir aðrir íslendingar, svo Dikta er ágætlega þekkt hérna úti. Og allt ætlaði að verða vitlaust þegar þeir tóku Thank you og Just getting started. Jólabarnið ég var rosa glöð þegar þeir tóku Nóttin var sú ágæt ein. Reyndar áhugavert þegar þeir reyndu að fá alla til að syngja með í því.
Á fimmtudaginn kom Nikulás, þýski jólasveinninn, og þegar ég vaknaði var líka svona fínn nammipoki í skónum mínum :)
Svo var ég í fríi allan daginn svo ég fór snemma inn í Köln að versla jólagjafir. Og skoða jólamarkaði í rólegheitum, sem er margfalt betra. Það var rosa kósý að stússast alein allan daginn og ég held ég sé nokkurn vegin komin með jólagjafirnar, veiii. Já og þar rakst ég á Fabienne, nágranna stelpuna. Á föstudaginn gerði ég ekki mikið, þá kom fullt af snjó, alveg svona 30 cm sem er rooosa mikið hér víst. Ég var úti að leika við krakkana þá og kíkti á ballettíma hjá miðjustelpunni. Svo var ég bara heima um kvöldið því ég þurfti að vakna snemma.
Í gær, Laugardag sem sagt var ég mætt kl. 9 á eitthvað skyndihjálparnámsskeið á vegum samtakana sem ég er hjá. Það var svo sem ágætt. ÞAÐ ER SVO KALT! Það eru kannski svona -2°C en mér finnst það í alvöru vera eins og þegar það er -10° heima, ég fór úr vettlingunum í 5 sek og ég gat varla hreyft fingurna. Í gærkvöldi kíkti ég út með Ivönu og Harry. Við byrjuðum á Starbucks af því að okkur var svo kalt. Þegar ég var að kaupa kaffið mitt hitti ég Alexei sem er með okkur í bekk. Sem sagt, á tveimur dögum var ég búin að hitta tvo sem ég þekki óvart, ég bjóst aldrei við því að þetta myndi gerast í Þýskalandi. Ég þekki svona 20 manneskjur hérna og í Köln býr 1 milljón! En allavega, svo fórum við á bari og klúbba og skemmtum okkur til hálf sex.
Í dag, sunnudag, vaknaði ég um hádegisbilið og var bara í rólegheitunum þangað til gastmutterin spurði hvort mig langaði ekki að kíkja með þeim til Bonn. Auðvitað var ég til í það, alltaf gaman að sjá nýja staði. En svo fórum við á pixar safn í Bonn! Getiði ýmindað ykkur, Disney lúðinn ég missti mig auðvitað í gleðinni. Ég skemmti mér lang best þarna, krökkunum fannst þetta fínt en þau höfðu bara séð svona helminginn af myndunum. Þarna voru upprunalegu myndirnar þegar það var verið að teikna fullt af karakterum, eins og t.d. Dóru og fleiri dýr úr Nemó, Zurg, flesta úr Monsters INC og fleira. Þetta var sem sagt mest krassað með blýanti á blöð, og svo voru einhver comment svona eins og hérna á myndavélin að sjá á milli tannanna í hákarlinum. Fáranlega nett. Svo var eitthvað svona toystory bíó, sem var einhvers konar hringekja, og svo voru blikkljós og hringekjan snérist svo þetta leit út fyrir að vera bíómynd. Allt of kúl. Og svo var eitthvað annað bíó þarna, og Benedikt (2 ára strákurinn minn) var alveg stjarfur og fannst þetta algjör snilld, kallaði yfir allt FLUGZEUG! AUTO! VIELE AUTOS! LUFTBABBÚN(Hans orð fyrir luftballon, blöðru). VÁ! Hvað ætli komi næst!? o.s.f.rv. og flestir voru farnir að fylgjast bara með viðbrögðunum hans haha. Þannig að, ef einhver kemur í heimsókn til mín veit ég hvert ég fer með hann í skoðunarferð!
Ég og fóstbræður mínir
Vá, í þessu orði er ég komin með 847 orð. Ég dáist að ykkur ef þið nennið að lesa þetta, og endilega látið mig vita ef þið gerið það, BITTE!
Að lokum, besta dagatal sem ég hef átt!
Alltaf eitthvað mega gott á hverjum degi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.